Leiðsögunám

Búist er við að erlendir ferðamenn sem sækja Ísland heim verði verði um og yfir ein milljón á komandi árum. Jafnframt ferðast Íslendingar í síauknum mæli í skipulögðum ferðum um landið. Til að undirbúa leiðsögn bæði erlendra og innlendra ferðamanna þarf fólk með þekkingu á landi og þjóð. Ferðamálaskóli Íslands býður uppá fjölbreytt og skemmtilegt leiðsögunám fyrir þá sem vilja kynnast Íslandi í máli og myndum. Í náminu skipa myndasýningar háan sess, þar sem helstu náttúruperlur landsins eru sýndar ásamt leiðarlýsingum um helstu ferðamannastaði landsins. Námið er hnitmiðað og áhugavert fyrir þá, sem kynnast vilja landinu okkar sem best. Námið er opið öllum þeim, sem áhuga hafa á að læra hvernig standa skal að leiðsögn innlendra og erlendra ferðamanna um Ísland, og hvernig koma megi þeirri vitneskju sem best á framfæri.

Boðið er upp á fjarnám með þáttöku í náms- og kynnisferðum.

  • Helstu viðkomustaðir ferðamanna í máli og myndum
  • Saga landsins
  • Framsaga, raddbeiting, tjáning og framkoma
  • Ferðmálafræði
  • Handbókanotkun
  • Veðurfræði – Norðurljósin
  • Skipulag og lagasetning í ferðaþjónustu
  • Þjóðhagsleg þýðing ferðaþjónustu
  • Fiskveiðar og vistkerfi sjávar
  • Íslenska efnhagskerfið
  • Skyndihjálp, skipulag á slysstað
  • Jarðfræði, jarðsaga, flekaskil og steindir
  • Fuglar og flóra Íslands
  • Dýralíf og sjávarspendýr
  • Veiðiár og vötn
  • Íslenski hesturinn
  • Ábyrgð leiðsögumanna
  • Bókmenntasaga – Listasaga
  • Menningartengd ferðaþjónusta
  • Mannleg samskipti, samskiptatækni
  • Afþreyingaferðir
  • Áfallahjálp
  • Samstarf leiðsögumanns og bílstjóra
  • Ritgerðarverkefni og margt fleira

Verkefni og vettvangsferðir skipa töluverðan sess í náminu og nemendur geta átt von á verkefnum sem þessum:

  • Verkefni nemenda „Sveitin mín“. Kynning og fyrirlestur nemenda á uppáhalds staðnum sínum.
  • Einu sinni í mánuði er farið í skipulagða dags skoðunarferð og er meðal annars farið til Þingvalla – Borgarnes – Miðbær Reykjavíkur – Reykjanes – Gullni hringurinn–Suðurstrandaferð og jafnvel víðar.
  • Hringferð um landið þar sem nemendur fá að spreyta sig í leiðsögn og er það skylduferð.

Námsskrá getur breyst eftir kröfum markaðarins, allt námsefni er innifalið en kostnaður vegna ferða bætist við. Námsefni er innifalið í skólagjöldum en ekki ferðir.

Meðal þeirra sem kennt hafa á námskeiðinu má nefna:

  • Ástríður Guðmundsdóttir – Leiðsögumaður
  • Auður Sveinsdóttir – Landslagsarkitekt
  • Arthúr Björgvin Bollason – Njálusetrið, Hvolsvelli
  • Birta Líf Kristinsdóttir – Veðurfræðingur
  • Einar Sveinbjörnsson – Veðurfræðingur
  • Erlingur Sigurðsson – Tamningamaður
  • Friðjón Sæmundsson – Skólastjóri Ferðamálaskólans
  • Hilmar Viktorsson – Leiðsögumaður
  • Höskuldur Frímannsson – Viðskiptafræðingur og leiðsögumaður
  • Jóhann Ævarsson – Læknir
  • Jóhann Sigurjónsson – Hafrannsóknarstofnun
  • Jakob Jónsson – leiðsögumaður
  • Kristinn  Helgason- skyndihjálp
  • Ágústa Kristófersdóttir – Listfræðingur
  • Kristófer Már Kristinsson – Leiðsögumaður
  • Stefán Helgi Valsson – Leiðsögumaður
  • Páll Guðmundsson – Ferðafélag Íslands
  • Bragi Skúlason – Sjúkrahúsprestur
  • Sigurkarl Magnússon – Kennari og leiðsögumaður
  • Sigurkarl Stefánsson – Kennari
  • Borgþór Kærnested – Leiðsögumaður
  • Jón Böðvarsson – Sagnfræðingur
  • Þorleifur Jónsson – Hagfræðingur
  • Martha Jensdóttir – Kennari
  • Sveinn Magnússon – leiðsögumaður
  • Páll Svansson – leiðsögumaður
  • María Ósk Steinþórsdóttir – leiðsögumaður og fararstjóri
  • Tryggi Axelsson – lögfræðingur

Kennslan fer fram 3svar í viku og er boðið er uppá dag og kvöldnám. Morgunkennslan er frá 09- 12-30 og kvöldkennslan frá 18.15- 22.

Farið er í fjölmargar vettvangsferðir, auk þess sem lista og menningarhús eru heimsótt. Í lok náms er farið í hringferð um landið þar sem nemendur fá að spreyta sig sem leiðsögumenn sem undirbúningur fyrir starfið.

Námið hefst í byrjun október og lýkur í maí.

Svipmyndir úr skólalífinu

Útskriftarnemar

Umsagnir nemenda

Tryggvi Pálsson

Þegar við hjónin fórum á eftirlaun ákváðum við að fara saman á leiðsögunámskeið Ferðamálaskóla Íslands. Við vorum búin að kanna svipað nám sem býðst í Háskóla Íslands og Menntaskólanum í Kópavogi en Ferðamálaskólinn hentaði okkur best. Við vorum ekki að fara í framhaldsnám í ferðamálafræðum eins og HÍ býður uppá né vildum við vera þrjár annir að klára námið líkt og í Kópavogi.

Vetrarlangt námskeið Ferðamálaskólans hentaði okkur afar vel. Markmið okkar var að bæta við þekkingu okkar á landi og þjóð. Við nutum þess að fá kynningu á svo mörgu fróðlegu og skemmtilegu. Úrvals kennarar sem og samnemendur höfðu frá mörgu að segja og samveran í tímum og kaffihléum var gefandi. Stuttar ferðir um helgar opnuðu nýja sýn og rúsínan í pylsuendanum var hringferðin um landið. Friðjón skólastjóri  hefur vini í hverri vík og ferðin var ógleymanleg.

Leiðsögunám Ferðamálaskóla Íslands er gráupplagt fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu og ekki síður fyrir eldri borgara sem vilja bæta við sig þekkingu og njóta lífsins.


Einar Guðmannsson

Í nokkur ár hef ég ætlað mér að klára leiðsögunám, en ég hef keyrt rútur í aukavinnu frá því 1998 og alltaf langað að bæta við mig leiðsögn. Ég lét svo verða af því að fara í leiðsögunám í Ferðamálaskóla Íslands veturinn 2022/2023. Námið fór langt fram úr mínum væntingum.

Kennarar skólanns eru mjög færir, námið var mjög fræðandi og skemmtilegt, auk þess að það var mjög fræðandi og skemmtilegt að fara hringferð í kringum landið sitjandi í skólastofunni með Sveini Magnússyni, yfirkennara. Honum tókst á skemmtilegan hátt að tengja sögu landsins jöfnum höndum við staði og staðhætti hringinn í kringum landið. Þegar svo að útskriftarferðinni kom, hringferð um landið þar sem nemendur fengu að skiptast á að spreyta sig í leiðsögn var frábær.

Kæru kennarar, Sigurkarl Magnússon (jarðfræði, steindir o.fl.), Magnús Jónsson (veðurfræði)  María Steinþórsdóttir (húsdýr, leiðsögn o.fl.) Stefán Helgi Valsson (ferðaþjónusta o.fl.), Sveinn Magnússon (land og saga og yfirkennari) Friðjón Sæmundsson  (veiðiár og vötn og skólastjóri) gestakennar og samnemendur, takk fyrir mig og samveruna í Ferðamálaskólanum.

Mæli hiklaust með þessu námi fyrir alla sem hafa áhuga á landinu okkar, þetta var langskemmtilegasti skóli sem ég hef verið í.


Sigurrós Karlsdóttir, Akureyri

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ferðamálum og hef síðan sumarið 2017 unnið við leiðsögn  í sumarfríinu mínu frá kennslunni og þá var ekki aftur snúið. Ég var oft hvött til þess af öðrum leiðsögumönnum að drífa mig í námið, en fékk líka að heyra að það skipti ekki máli, ég kynni þetta allt saman.

Síðastliðið haust fór ég svo að kanna málið og sé sko alls ekki eftir því. Þegar að ég fór að skoða kennsluáætlun og námsefnaskrá komst ég fljótt að því að mikið var í námið lagt, margir kennarar komu að náminu og allt mjög faglegt og skemmtilegt. Það allavegana þaggaði niður þær raddir að það væri óþarfi að drífa sig í þetta nám, það er sko langt í frá.

Ég fékk að byrja í Ferðamálaskólanum þó svo að 1 eða 2 vikur væru liðnar af skólaárinu, ég þurfti bara að vinna það upp. Það var ekkert mál að vera í fjarnámi og koma á staðinn þegar að ég gat, eins var ég að fara erlendis sem zumba kennari/fararstjóri í löngu planaða ferð og yrði þá ekki við skjáinn, það var nú lítið mál, allt var tekið upp og því gat ég fengið tímana sem að ég missti af senda og missti þar af leiðandi ekki af neinu.

Eins var alveg frábært að geta tekið þetta svona í fjarnámi, auðvitað fór ég suður í vettvangsferðir og ekki má gleyma hvað hringferðin var frábær og lærdómsrík. Bara dásamlegt og hægt að mæla með.


Guðm.Karl Jónsson

Veturinn 2022 – 2023 settist ég aftur á skólabekk eftir 10 ára hlé og reynsla mín af Ferðamálaskóla Íslands þennan vetur var sérstaklega góð.

Allt nám í skólanum fór fram á íslensku sem gefur nemendum sem vilja fyrst og fremst fræðast um  eigið land gott færi á slíku. Þeim nemendum sem hyggja á leiðsögn á öðru tungumáli eða málum, gafst síðan kostur á að taka tungumálapróf í lok námsinns.

Einn af mörgum kostum námsins voru þessi frábærlega hæfu kennarar skólans sem hafa mikla þekkingu og reynslu, hver á sínu sviði. Kennslan var mjög markviss og hnitmiðuð sem gerði það að verkum að nemendur fengu mikið út úr náminu.

Námið fór fram í fjar- og staðarnámi sem hentaði mér mjög vel og ávallt var vel tekið á móti mér þegar ég átti leið í höfuðborgina og sat tíma á staðnum. Fyrir vikið eignaðist ég marga góða vini úr hópi kennara og nemenda.

Ég mæli eindregið með Ferðamálaskóla Íslands.


Magnús Ólafsson

Haustið 2020 var ég eitthvað að skoða á netinu og rakst þá á kynningu frá Ferðamálaskóla Íslands. Boðið var upp á leiðsögunám sem átti að hefjast 1. október og vera að hluta kennt í fjarnámi.  Eitthvað heillaði mig og við nánari skoðun m.a. með viðtölum við félaga mína, sem höfðu farið í gegnum þetta nám skráði ég mig til leiks.

Í stuttu máli var þetta alveg frábært ævintýri.  Kynntist fjölmörgu nýju og rifjaði upp annað sem ég hafði áður lært. Eignaðist góða vini og við fórum í góðar ferðir saman og lærðum margt um mikilvæga þætti í góðri leiðsögn. Með góðan grunn getur maður síðan sífellt bætt við sig þekkingu sem nýtist.

Námið er fjölbreytt og markvisst. Farið var yfir ýmsa þætti í jarðfræði. Góð kynning á helstu fuglum sem hér lifa sem og farfuglunum. Flóra Íslands kynnt og farið yfir helstu plöntur og blóm. Sögu lands og þjóðar var gerð góð skil og fjölmargt fleira, sem gagnast við leiðsögn. Þá fékkst góð kynning á einstökum stöðum sem gaman er að skoða og kynna fyrir erlendu og innlendu ferðafóllki. 

Auk þessa var rækilega farið yfir hvernig bregðast skuli við áföllum krefjandi verkefnum, sem alltaf geta komið upp ef ferðast er um með hóp fólks.

Áður en ég fór í námið hafði ég farið með hópa í ferðir, einkum hópa hestafólks.  Eftir að námi lauk hef ég haft svo mikið að gera við ýmiskonar leiðsögn sem hugurinn girnist. Það er skemmtilegt, gefandi og fræðandi.

Mæli hiklaust með þessu námi, hvort sem fólk hefur hug á að leggja leiðsögn fyrir sig, eða bara fara í námið til að kynnast landinu okkar og sögunni betur.


Guttormur Björn Þórarinsson

Ég fór í Ferðamálaskóla Íslands haustið 2010. Námið er byggt á breiðum grunni bæði bóklegt og verklegt,  Bóklega námið jók skilning minn á sögu þjóðarinnar  auk alls þess sem ég lærði um náttúrufar landsins,  dýralíf, atvinnuvegi og margt fleira .  Verklegi þáttur námsins var mjög mikilvægur og kenndi mér góða tækni við leiðsögn, tímasetningu  og ákvarðanir.  Þá var einnig gott að geta sett sig í spor þeirra sem leiðsagnar njóta. Námið gaf mér sjálfstraust þegar kom að því að kynna fyrir gestum land og þjóð og segja frá því sem fyrir augu bar á ferð um landið.  Ég naut námsins og það gagnaðist mér í sumar.


Guðrún Helga Bjarnadóttir

Veturinn 2013-2014 stundaði ég leiðsögunám í Ferðamálaskóla Íslands, Bíldshöfða 18 í Reykjavík. Það er mér sönn ánægja að fá að deila með ykkur minni upplifun af náminu, skipulaginu og öðru sem skólanum tengist.Í fyrsta lagi stóð námið undir væntingum mínum. Fjölmargir kennarar komu að kennslunni og áttu þeir yfirleitt auðvelt með að ná til mín og auka áhuga minn á námsefninu og ekki síst að vekja mig til umhugsunar um þá auðlind sem landið okkar er og þá virðingu sem okkur ber að sýna því. Skipti þá ekki máli hvort það var kennari sem kom með eitt námskeið s.s. veðurfræði, íslenski hesturinn eða norðurljós eða þeir kennarar sem voru meira og minna með bekknum í allan vetur t.d. í jarðfræði, jarðsögu og land og sögu. Kennararnir voru mjög færir og fróðir, hver á sínu sviði og áttu auðvelt með að koma efninu til skila.Í öðru lagi einkennist menning skólans af góðu skipulagi, afslöppuðu andrúmslofti, lipurð skólastjórnenda og einstaklingsbundnu námi.Í öðru lagi einkennist menning skólans af góðu skipulagi, afslöppuðu andrúmslofti, lipurð skólastjórnenda og einstaklingsbundnu námi.

Í fjórða lagi gefur námið mikla atvinnumöguleika og spennandi tímar eru framundan.

Ég mæli eindregið með námi í Ferðamálaskóla Íslands.


Magnús Pétursson

Öllum sem áhuga hafa á sögu lands og þjóðar er afar gagnlegt og raunar hollt að sækja nám í Ferðamálaskóla Íslands. Þetta á við hvort heldur fólk áformar að starfa að ferðamálum s.s. leiðsögn eða einfaldlega fræðast um náttúrufar, sögu og það sem vekur áhuga ferðamannsins hér á landi. Námið er ágætlega skipulagt og kennarar hjálplegir og fróðir. Nemendurnir koma úr ólíkum áttum hver með sína sérþekkingu og gerir hópinn því einkar áhugaverðan. Ég held ég geri orð Björns nokkurs Jónsson að mínum en hann segir í fyrsta erindi „Fararstjórablús“:Hvar er Herðubreið?
Hvar er Skúlaskeið?
Hvaða símanúmer nota ég í bráðri neyð?
Hvað er líparít
Hví er Hvítá hvít?
Ef ég svara ekki eins og skot er í djúpum skít.
Ég er viss um að ég vissi þetta í gær.
(Lag: Hvar er húfan mín.)


Unnur Helgadóttir

Ég fór í Leiðsögunám í Ferðamálaskóla Íslands haustið 2003 og líkaði mjög vel. Áður en ég hafði lokið náminu var ég komin með fastráðningu sem leiðsögumaður hjá Allrahanda. Skólinn og kennslan var til fyrirmyndar í einu og öllu. Ég hef unnið við ferðamál í 34 ár samfellt eða síðan 1.maí 1971 bæði á ferðaskrifstofum og Flugleiðum. Þetta nám varð til þess að síðast liðið ár fékk ég mér ferðaskipuleggjandaleyfi og stofnaði mitt eigið fyrirtæki, Exotic Iceland, fyrir ferðir um Ísland. Skólinn varð mér þvílík hvatning að ég mæli sérstaklega með honum.


Martha Jensdóttir

Síðasta haust hóf ég leiðsögunám við Ferðamálaskóla Íslands. Námið fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hef ferðast mikið um landið frá barnsaldri en þrátt fyrir það öðlaðist ég nýja sýn á landið í skólanum. Námið er hnitmiðað og að auki mjög skemmtilegt, reyndar svo skemmtilegt að ég vil helst fá framhalds nám. Þetta nám kemur mér að miklu gagni í starfi mínu sem kennari og vonandi sem leiðsögumaður í framtíðinni.


Chús M. Barja

Mér fannst námið mjög fróðleg og hópurinn var skemmtilegur. Ég mæli eindregið með þessu námi sem á örugglega eftir að nýtast mér vel.


Ragna B. Egilsdóttir

Árið 2002, ákvað ég að fara í Leiðsögunám í Ferðamálaskóla Íslands, Því sé ég aldrei eftir. Tilgangur minn var aðallega að komast í betri launaða vinnu og starf sem mér þætti gaman af. Námið var að vissuleyti krefjandi, samt lifandi og skemmtilegt og hnitmiðað. Síðan að námi loknu, hef og unnið á vettvangi leiðsögu mér til mikillar ánægu, með betri laun, og einstaklega ánægulegt starf.


Guðrún I. Bjarnadóttir

Ég hef alltaf haft gaman af að ferðast um Ísland og meiri ferðalög kölluðu á meiri fróðleik. Auðvitað hefði ég getað lesið landafræði, íslendingasögur, ferðabækur og fleira heima í stofu en þegar ég fann Leiðsögunámið í Ferðamálaskóla Íslands þá ákvað ég að slá til – bæði til að hafa fasta stefnu í fróðleiksöflun og ekki síður til að finna félagsskap þeirra sem höfðu þetta sama áhugamál á landi og þjóð. Og viti menn – þetta var gaman – mikið gaman. Veturinn fór í að „ferðast“ um Ísland. Hverju svæði fyrir sig voru gerð góð skil og farið var í allskonar hliðargreinar, jarðfræði, flóru, fánu, sögu, auk fleiri þátta sem hver um sig hefur haft mótandi áhrif á hvað Ísland og íslendingar eru í dag. Aðstaðan var góð, kennari og utanaðkomandi leiðbeinendur góðir, félagsskapur annarra nemanda frábær. – Ég þakka fyrir veturinn og myndi ekki slá hendinni á móti tækifæri til að læra meira.


Þorgerður Jónsdóttir

Í mörg ár hafði ég hugsað hvað það hlyti að vera skemmtilegt starf að vera leiðsögumaður. Ég ákvað svo í fyrra að hika ekki lengur og skellti mér í námið í Ferðamálaskólanum. Það er skemmst frá því að segja að veturinn í vetur hefur verið einn sá skemmtilegasti í mínu lífi. Ótrúlega áhugavert og kennararnir frábærir. Einnig fengum við stórgóða fyrirlesara svo þetta hefur verið virkilega fræðandi. Andinn í skólanum er skemmtilega heimilislegur sem ekki spillti fyrir. Ég hef farið sem leiðsögumaður í nokkra túra og hef búið vel að kennslu vetrarins. Ég get því óhikað mælt með Ferðamálaskóla Íslands.


Hallfríður Jóna Jónsdóttir

Sumarið 2005 var ég að skoða nokkra möguleika á aukinni menntun…. Þar sem ég var í fullu starfi þá voru kvöldskólar sá vettvangur sem ég hugði að. Ferðamálaskólinn varð fyrir valinu með Leiðsögunámið. Þau kvöld sem skólinn var voru hrein og klár skemmtun fyrir mig þar sem ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast, skoða söguna, jarðfræðina og náttúruna í allri sinni mynd. Námið er þar að auki krefjandi og kennararnir sem eru í skólanum eru hreint út sagt frábærir. Miðla af eigin reynslu jafnt og staðreindum úr bókum og ritum. Þennan vetur lærði ég miklu meira um land, þjóð jarðfræði og sögu en mig hafði grunað að hægt væri á þetta stuttum tíma. Nú taka við hjá mér störf á nýjum vettvangi þar sem ég get blandað saman mínum áhugamálum, þeirri þekkingu og réttindum sem ég aflaði mér í vetur.


Guðmundur Eiríksson

Lengi hafa ferðalög um Ísland verið mitt aðaláhugamál. Ég hef heimsótt flesta staði landsins, fótgangandi, eða á bíl, sem farastjóri eða farþegi. Þessi ferðalög vöktu áhuga minn á, að fræðast meira um landið, lesa jarðfræði og sögu Íslands og að kynnast plöntum og fuglalífi landsins svo eitthvað sé nefnt. Haustið 2005 tók ég ákvörðun um, að fara í leiðsögunám í Ferðamálaskóla Íslands, ekki bara til að afla mér réttinda, til að fara með ferðamenn um landið, heldur líka til að gera ferðalögin mín skemmtilegri. Tíminn í skólanum var frábær og það lýsir kannski náminu, leiðbeinendum og samnemendum best, að ég lét mig ekki vanta í einn einasta tíma í vetur. Takk fyrir mig.